Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur, að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands, ákveðið að útflutningshlutfall kindakjöts af fé sem slátrað verður árin 2008-2009, verði 28% á dilkakjöti. Engin útflutningsskylda er á kjöti af fullorðnu fé.

Útflutningsprósentan sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfestir nú er sú sama og Markaðsráð kindakjöts og Bændasamtökin lögðu til fyrr í sumar.

Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins (BBL).

Þar kemur fram að útflutningsskyldan styðst við heimild í búvörulögum og það er landbúnaðarráðherra sem tekur endanlega ákvörðun um hvert hlutfallið skuli vera.

Þá er jafnframt greint frá því að þetta er í síðasta skiptið sem útflutningsskylda er ákveðin en heimild til þess fellur niður 1. júní 2009.

Eftir þann tíma verður það alfarið mál bænda og afurðastöðva hvernig staðið verður að útflutningi.

650 milljónir til bænda

„Hingað til hafa erlendir markaðir fyrir lambakjöt skilað bændum, að jafnaði, lægra verði en innanlandsmarkaður,“ segir í frétt BBL.

Útflutningshlutfallið felur í sér að bændur skuldbinda sig til að selja ákveðið hlutfall framleiðslunnar úr landi. Ef dilkakjötsframleiðslan í ár verður með svipuðum hætti og í fyrra, eða um 7.700 tonn, má áætla að útflutningur nemi rúmum 2.100 tonnum.

Ef meðalútflutningsverð er reiknað út samkvæmt nýjum verðlista Norðlenska (kr. 305 pr. kg), sem einn sláturleyfishafa hefur birt verðtöflur, fá bændur um 650 milljónir króna í sinn hlut.