Greiningaraðilar spá um 5,8% hagvexti í ár, 3,2% á næsta ári og 2,7% árið 2019, miðað við meðaltal á hagspám greiningardeilda bankanna, ASÍ, Seðlabankans, Hagstofunnar og AGS. Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, segir að ef hagvöxturinn eigi að halda áfram með sjálfbærum hætti þurfi að bæta samkeppnisstöðu þjóðarbúsins.

„Efnahagsleg staða þjóðarbúsins hefur sjaldan verið sterkari og það ætti að vera í forgangi að varðveita þá stöðu. Það gerist ekki nema útflutningstekjur vaxi samfara vexti hagkerfisins.“ Ásdís nefnir sem dæmi að ef meðalhagvöxtur næstu tuttugu árin verði 3% þá þurfa útflutningsverðmæti að vaxa um 1.000 milljarða króna, eða 50 milljarða króna á ári. „Þetta eru verulega fjárhæðir og óraunhæfar ef okkur tekst ekki að standa vörð um samkeppnisstöðu þjóðarbúsins.“

Á síðustu árum hefur ferðaþjónustan verið drifkraftur hagvaxtar, en greiningaraðilar spá því að nú sé að hægja á vexti greinarinnar. „Vegna þessa er óraunhæft að ætla að hagvöxturinn komi frá einni útflutningsgrein. Hann þarf að koma úr ýmsum áttum, samfara aukinni verðmætasköpun úr auðlindagreinunum ásamt frekari vexti í öðrum útflutningsgreinum sem ekki eru bundnar auðlindum landsins. Þessi vöxtur verður að haldast í hendur við uppsafnaða þörf innviðafjárfestinga, sem nýverið var metið að slagi hátt á fjórða hundrað milljarða króna. Það er ljóst að hið opinbera getur ekki fjármagnað allar þær framkvæmdir án aðkomu einkaaðila,“ segir Ásdís.

Enn fremur er mikilvægt að hið opinbera og aðilar á vinnumarkaði tileinki sér agaðri vinnubrögð til að bæta samkeppnishæfni Íslands, segir Ásdís.

„Mikilvægt er að stjórnvöld skapi svigrúm í rekstri svo unnt sé að lækka skatta á bæði fólk og fyrirtæki. Koma þarf í veg fyrir að skattkerfið verði ekki dragbítur frekari vaxtar í hagkerfinu. Á vinnumarkaði er svo lítið svigrúm til að halda áfram á sömu braut og hækka laun þrefalt á við það sem gengur og gerist í okkar nágrannaríkjum. Á endanum bitnar það á hagvexti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .