Útflutningsverðmæti Noregs jukust um 77% á milli ára og námu 1.378 milljörðum norskra króna, eða tæplega 20,4 þúsund milljörðum króna, á síðasta ári. Breytingin á milli ára skýrist helst af auknum útflutningstekjum af olíu og gasi sem vógu meira en 60% af öllum vöruútflutningi Noregs á síðasta ári. Viðskiptajöfnuður Noregs náði nýjum hæðum í 531 milljarði norskra króna.

Olíuverð lækkaði verulega í byrjun kórónuveirufaraldursins vegna minni efnahagsumsvifa en verðið sveiflaðist aftur upp á við á síðasta ári. Verð á hráolíu er nú nálægt þriggja ára hámarki.

Í tilkynningu norsku hagstofunnar segir að þróun verðlags á síðasta ári hafi verið hagstæð Norðmönnum en útflutningsvörur hækkuðu mun hraðar í verði en vörur sem Noregur flytur inn. Er þar sérstaklega minnst á gas, olíu, raforku, fisk og málma.

Fram kemur að verð innfluttra vara hafi aukist um 7,6% á milli ára sem er mesta aukning á milli ára frá árinu 2004. Hins vegar jókst verð útflutningsvara um 70%, mælt með vísitölu framleiðsluverðs, en bent er á að hún hafi verið tiltölulega lág árið 2020.

Verðmæti útflutnings á jarðgasi nam 476 milljörðum norskra króna árið 2021 sem er fjórföldun frá fyrra ári. Það megi rekja til „himinhás“ gasverðs sem er afleiðing af orkukrísunni í Evrópu.

Útflutningsverðmæti hráolíu jukust úr 208 milljörðum í 350 milljarða norskra króna á milli ára. Fjöldi tunna af hráolíu sem Noregur flutti út jókst um 5,6 % í 584 milljónir tunna árið 2021 og er það mesta magn frá árinu 2009.