Áætlað útflutningsverðmæti sjávarafurða til Rússlands á árinu 2015 nemur 37 milljörðum króna, en þetta kemur fram á minnisblaði sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi lögðu fram á fundi með utanríkismálanefnd Alþingis í fyrradag. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar segir að verðmætið sé mun meira en áður var talið, en mjög líklegt er að Rússar muni á næstunni bæta Íslandi á lista yfir þau ríki sem þeir beita viðskiptabanni.

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, segir í samtali við Morgunblaðið að þessar tölur hafi ekki breytt afstöðu nefndarinnar til áframhaldandi viðskiptaþvingana. „Þetta eru auðvitað umræður sem eiga sér stað eftir því sem málinu vindur fram. Að sjálfsögðu þarf að horfa á beina viðskiptahagsmuni en einnig á stöðu okkar sem aðildarríki í NATO og aðila að Evrópska efnahagssvæðinu.“