Mars var fyrsti mánuðurinn þar sem útflutningur áls skilaði meiri tekjum en útflutningur sjávarafurða, þótt útflutningur síðarnefndu varanna hefði raunar verið með myndarlegra móti í mánuðinum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

„Álútflutningur nam alls 13,8 milljörðum króna í mars og hefur verðmæti hans aldrei verið meira í einum mánuði,“ segir í Morgunkorni.

Þá kemur fram að Álver Alcoa á Austurlandi skilar nú fullum afköstum eftir talsverðar tafir í orkuöflun.

„Má gróflega gera ráð fyrir að álframleiðsla hér á landi nemi nú um það bil 65.000 tonnum í mánuði hverjum, en til samanburðar voru að meðaltali framleidd 27.000 tonn áls á mánuði árið 2006,“ segir í Morgunkorni.

Á föstu gengi skilaði álið um bil 35% meira útflutningsverðmæti í mars en á sama tíma í fyrra.

„Verð á áli og sjávarafurðum er enn hátt á heimsmörkuðum og fátt sem bendir til þess að það lækki verulega í bráð,“ segir Greining Glitnis í Morgunkorni.