Ferskur útflutningur hjá Samherja hefur minnkað í allt að 25% af venjulegu árferði, eða þrjá fjórðu hluta, á síðustu tveimur vikum að sögn Kristjáns Vilhelmssonar útgerðarstjóra félagsins, í bréfi til starfsmanna sem birt hefur verið á vef félagsins, vegna áhrifa útbreiðslu Covid 19 veirufaraldursins.

Hyggst félagið minnka starfsemi þess á Dalvík og hjá Útgerðarfélagi Akureyringa niður í því sem næst helming með því að einungis 50% starfsfólks vinni á sama tíma í þessari viku, þannig að hver starfsmaður vinni annan hvern dag.

Hins vegar er félagið að skoða hugmynd í samstarfi við áhafnir sínar um að hver áhöfn verði í eins konar einangrun um borð eins lengi og fært er með því að vera marga túra í röð án þess að fara í land á milli. Nánar er fjallað um málið á vef Fiskifrétta .

„Með þessu teljum við auknar líkur á að takist að halda skipunum lengur inni í rekstrinum og þar með tekjum ykkar,“ segir Kristján, þó hann viðurkenni að það verði ekki auðvelt fyrir marga því ekki sé hefð fyrir því að fara ekki í land á milli túra.

„Markaðirnir okkar hafa snarbreyst á 2 vikum og það sést alls ekki fyrir um áframhaldandi breytingar, en þær munu því miður gerast. Að sama skapi hefur þurft að breyta í vinnslunni. Ferski útflutningurinn hefur minnkað í allt að 25% af því sem var, og alger óvissa um næstu vikur. Það eins með magnið, það sveiflast og þess vegna oft erfitt að ákveða fyrir fram hvað mikið við getum fiskað.“

Í bréfinu brýnir Kristján jafnframt á um að það sé samfélagsleg skylda allra að gera það sem þarf til að hefta útbreiðsluna, og við höfum ekki önnur ráð en við fáum frá yfirvöldum, sóttvarnarlækni og almannavörnum. Nú þurfi hins vegar að ganga lengra en áður og þess vegna sé gripið til samdráttar í starfseminni.

„Eigendur og yfirmenn Samherja hafa reynt í einu og öllu að fara eftir fyrirmælum Almannavarna og hefur starfsemi fiskvinnslunnar verið umturnað þess vegna. Með fjölmörgum nýjum umgengisreglum, með auknum þrifum, með aðskilnaði starfsfólks, með heimsóknar banni, með vali og lágmörkun á viðgerðum/viðhaldi, með algerri uppstokkun í mötuneyti, með mismunandi komu og brottfara tíma á vinnustað, með tilmælum um ferðir til og frá vinnu, með tilmælum um lífsstíl og hegðun utan vinnutíma og með uppsetningu veggja í vinnslusölum til að minnka nálægð.“