Útflutningur vöru og þjónustu mun aukast um 2,5% í ár, um 3,7% á næsta ári og um 2,3% árið 2015 samkvæmt spá Greiningar Íslandsbanka sem kynnt var á Fjármálaþing Íslandsbanka í dag.

Greining segir að þetta sé nokkuð minni vöxtur en verið hefur síðustu ár en útflutningur vöru og þjónustu jókst um 3,8% í fyrra og sömu prósentutölu 2011. Þetta sé líka fremur lítill vöxtur í ljósi þess að raungengið sé afar lágt um þessar mundir og muni verða það áfram.

„Kerfislæg vandamál á borð við skuldastöðu fyrirtækja og fjármagnshöft draga úr getu fyrirtækja til að nýta þau tækifæri til aukins vaxtar útflutnings sem lágt raungengi búður upp á. Eins eru stærstu greinar vöruútflutnings háðar framboðstakmörkunum sem gerir þeim erfitt að bregðast við breytingum á samkeppnisstöðu,“ segir Greining Íslandsbanka.

Ferðaþjónustan er einn helsti drifkraftur í vexti útflutnings um þessar mundir og reiknar Greining með áframhaldandi vexti þar. Hins vegar muni hægja á vextinum. Greining Íslandsbanka spáir því að útflutningur þjónustu muni vaxa um 4,8% í ár, 4% á næsta ári og 3,5% á árinu 2015. Auk vaxtar í ferðaþjónustu hafi verið ágætur vöxtur í útflutningi sjávarafurða samhliða auknum kvóta. Reiknað er með því að útflutningur sjávarafurða aukist í ár og á næstu árum í samræmi við úthlutaðann kvóta og áætlun Hafrannsóknarstofnunar um þróun helstu nytjastofna. Greining spáir 6,1% vexti í útflutningi sjávarafurða á næsta ári og um 2,6% vexti árið 2015.