Borg Brugghús hefur gengið frá samningum um útflutning á verðlaunabjórnum Bríó til Kanada. Fyrirtækið Christopher Steward wine & Spirits, sem er umboðsaðili Bríó í Kanada, sér meðal annars um sölu á hinum þekkta Brewdog bjór í öllum fylkjum landsins.

Í tilkynningu segir að aðstandendur Bríó og bruggmeistarar Borgar, þeir Sturlaugur Jón Björnsson og Valgeir Valgeirsson séu ánægðir með þessa samninga, enda sé þetta mikill heiður fyrir fyrsta bjór brugghússins.

Fyrsta pöntun er þegar komin og er upp á nokkra gáma, að því er segir í tilkynningunni og verður þetta því umtalsvert magn þegar á þessu ári.

Þar er einnig haft eftir Kormáki Geirharðssyni, hjá Ölstofu Kormáks og Skjaldar, að það sé ekkert nema jákvætt að heimsbyggðin fái að njóta þeirrar fljótandi lífsins lystisemd sem Bríó sé.

Bjórinn Bríó var þróaður sérstaklega af Borg Brugghúsi í samstarfi við Ölstofu Kormáks og Skjaldar og fékkst eingöngu úr krana Ölstofunni fyrstu mánuðina, en hann mætti þangað fyrst í sinni endanlegu mynd í lok maí 2010.

Bríó er nefndur eftir góðum vini þeirra Kormáks og Skjaldar, fjöllistamanninum Steingrími Eyfjörð Guðmundssyni, sem lést fyrir aldur fram árið 2009.