Útflutningur liðins árs var mun meiri en gert var ráð fyrir í bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands, eða 302,8 milljarðar króna en ekki 297,6 milljarðar króna eins og stofnunin hafði áður gefið út.

Aukinn útflutningur liggur að mestu leyti í útflutningi skipa og flugvéla í nóvember og desember en nú er gert ráð fyrir rúmlega 45,4 milljarða króna útflutningi skipa og flugvéla á árinu í stað 33,5 milljarða króna áður.

Þessi aukni útflutningur skipa og flugvéla, frá því sem gert var ráð fyrir í fyrri áætlunum fjármálaráðuneytisins, hefur þó ekki áhrif á hagvaxtarspá ársins 2007 þar sem hann dregur úr atvinnuvegafjárfestingu ársins að sama magni.

Minni vöruskiptahalli en ætlaður var

Annar útflutningur eykst þó einnig en mun minna, eða sem nemur 3,3 milljarði króna. Innflutningur vöru er nú áætlaður 390,7 milljarðar króna sem er einnig aukning frá fyrri tölum eða sem nemur 2,5 milljarði króna, án skipa og flugvéla, og er vöruskiptahallinn nú áætlaður 87,9 milljarði króna í stað 100,6 milljarða áður.

Mismunurinn, um 800 milljónir króna, án aukins útflutnings skipa og flugvéla, eykur hagvöxt sl. árs um tæpt 0,1 prósentustig, en fjármálaráðuneytið hafði áður spáð 2,7% hagvexti á sl. ári.