Í fyrsta sinn í sögunni nemur verðmæti útfluttra lyfja meira en verðmæti innfluttra lyfja. Samkvæmt tölum, sem Samtök iðnaðarins hafa unnið upp úr gögnum Hagstofunnar, voru flutt út lyf fyrir 5,4 milljarða króna fyrstu sjö mánuði ársins. Á sama tíma nam verðmæti innfluttra lyfja 4,2 milljörðum. Munurinn er 1,2 milljarðar. Lyf eru því að verða með mikilvægari iðnaðarvörum sem Íslendingar flytja út.

Á vef Actavis, segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Actavis, að aukning í lyfjaútflutningi sé afar ánægjuleg þróun fyrir þjóðarbúið. ?Við vonum að útflutningurinn haldi áfram að aukast og að Actavis hafi umtalsverð áhrif á þá þróun."

Útflutningur lyfja frá Íslandi hófst upp úr 1990. Fimm árum síðar nam verðmæti útfluttra lyfja 15-20% af verðmæti innfluttra lyfja. Árið 2000 jókst útflutningur töluvert vegna nýrrar framleiðslugetu í greininni og vonir standa til að hann vaxi enn frekar á næstu árum.