Hækkanir á afurðaverði til bænda í mjólkuriðnaði í Evrópu hefur leitt til þess að íslenskar mjólkurvörur hafa aldrei verið jafn samkeppnishæfar í verði og nú, að sögn Guðbrands Sigurðssonar, forstjóra Mjólkursamsölunnar.

Bændur hérlendis fá aðeins lægra verð fyrir útflutningsmjólkina svo kölluðu, sem nýtt er í þessa framleiðslu, en aðra mjólk en verð hefur þó hækkað umtalsvert undanfarin ár.

Fyrir nokkrum árum voru íslenskir bændir að fá um tíu krónur fyrir lítrann af umfram mjólk en í ágúst síðast liðnum gaf MS út að greiddar yrðu 27 krónur fyrir umframmjólk til útflutnings. Guðbrandur segir ljóst að vegna núverandi stöðu á mörkuðum ytra gefist færi á að hækka endurgjaldið fyrir mjólkina enn frekar, eða um nokkrar krónur, og um miðjan janúar verði ný verðskrá gefin út.

„Það er ljóst að þótt magnið sé lítið er um mjög drjúga viðbót að ræða, bæði fyrir okkur í vinnslunni og ekki síður fyrir bændur,” segir Guðbrandur. „Mjólkurverð til bænda í Norður-Evrópu, t.d. Danmörku og Þýskalandi, var fyrir um hálfu öðru ári í kringum 23-24 krónur, en það er nú komið upp í 35-37 krónur. Frá 1. janúar borgum við rétt tæpar 50 krónur. Annars staðar, t.d. í Austurríki, voru menn að hækka mjólkurverð til bænda í um 43 krónur og ég fullyrði að verðhækkanirnar í Evrópu hafa leitt til að verðmunurinn á okkur og löndunum ytra hefur aldrei verið minni,” segir Guðbrandur.

Fituneysla eykst hérlendis

Árleg innanlandsneysla á mjólk er í kringum 114-115 milljónir lítra. Tveir helstu þættir mjólkurinnar eru prótein og fita og er sá fyrrnefndi m.a. nýttur í framleiðslu skyrs en sá síðarnefndi einkum til smjöframleiðslu. Fituneysla hérlendis var orðin talsvert minni en próteinneysla, eða sem nemur á að giska 10 milljónum mjólkurlítra, og hefur verið unnið úr því magni u.þ.b. 600-700 tonn af smjöri árlega sem hefur farið til útflutnings. Í ár var magnið heldur minnan en árið þar á undan og er því einkar athyglisvert að ein veigamesta ástæðan er sú að fituneysla hefur aukist hérlendis. Má helst nefna feita osta, smjör og rjóma í því sambandi. Hefur próteinneysla Íslendinga undanfarin misseri hefur vaxið um 1-2% á ári en fituneyslan hefur aukist um 4-5% á sama tíma.

„Skýringin er ekki aðeins sú að varan er góð heldur hefur einnig vara á borð við smjörlíki nær horfið úr ísskápum landsmanna undanfarin fimm ár eða svo. Ég held einnig að þetta endurspegli að fólk sé að borða minna af mettuðum fitusýrum og transfitusýrum en áður og meira af hreinni og náttúrulegri fitu,” segir Guðbrandur.

MS hefur undanfarin misseri lagt áherslu á tilraunaútflutning á skyri til Bandaríkjanna og Bretlands. Í fyrstu nam skyrútflutningur til Bandaríkjanna um hálfu til einu tonni á viku en er nú kominn upp í 3 tonn á viku. Hefur aðallega verið reynt að breiða út orðspor skyrsins manna á milli, þ.e. efna til vörukynninga á skyri í verslunum og treysta því síðan að neytandinn mæli með vörunni við aðra. Þetta hefur gefið góða raun. „Við höfum lagt áherslu á dýrari markaði þar sem boðið er upp á sérvaldar vörur, og hefur skyrið fallið mjög í kramið á þeim markaði. Smjörið þykir líka mjög bragðgott og náttúrulegt, enda frá kúm sem nærast aðallega á grasi,” segir hann.