Þrátt fyrir styrkingu evrunnar og minnkandi hagvöxt á evrusvæðinu er gangurinn í útflutningi Þýskalands, stærsta hagkerfisins í Evrópu, enn mjög góður.

Þannig jókst verðmæti útflutnings frá Þýskalandi í janúar um 9% frá janúar í fyrra í 84,4 milljarða evra að því er kemur fram í frétt Süddeutsche Zeitung. Á sama tímabili jókst verðmæti innflutningsins um 10,2% í 67,3 milljarða evra.

Það sem vekur þó meiri athygli er að útflutningur í janúar jókst um 3,8% frá desember en það er mun meiri vöxtur en flestir hagfræðingar og sérfræðingar höfðu reiknað með en spá þeirra hljóðaði upp á um 1% vöxt.