Viðskipti Kínverja við útlönd drógust töluvert saman í júní og var samdrátturinn meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Útflutningur var 3,1% minni í mánuðinum en á sama tíma í fyrra og þá dróst innflutningur saman um 0,7%.

Í frétt BBC segir að sérfræðingar hafi gert ráð fyrir því að útflutningur myndi aukast um 4,0% og er munurinn því töluverður. Samdráttur í innflutningi þykir bera merki um dofnandi innlenda eftirspurn.

Hagvöxtur á fyrsta fjórðungi þessa árs var 7,7% á ársgrundvelli, en var 7,9% á fjórða ársfjórðungi 2012. Í frétt BBC segir að menn hafi nú áhyggjur af því að hagvöxtur muni enn dragast saman, ekki síst vegna þess hve lengi helstu markaðir fyrir kínverskar vörur, Evrópa og Bandaríkin, hafa verið að ná sér eftir hrunið.

Kínversk stjórnvöld hafa verið að reyna að breyta um stefnu í efnahagsmálum og reyna að ýta undir innlenda neyslu til að vega upp á móti minnkandi útflutningi en það hefur reynst þrautin þyngri.