Útflutningur sjávarafurða árið 2003 nam 809 þús. tonnum og jókst um 0,6% frá 2002 samkvæmt nýútgefnu riti Hagstofunnar, Útflutningur sjávarafurða 2003. Verðmæti afurðanna 2003 nam 113,7 milljörðum króna sem er 11,6% samdráttur frá 2002 en sterkari króna og lægra afurðaverð skýrir þá þróun.

Í Morgunkornum Íslandsbanka kemur fram að mikilvægasta markaðssvæðið fyrir íslenskar sjávarafurðir var evrópska efnahagssvæðið en þangað voru seldar sjávarafurðir fyrir 87 milljarða eða 76% af heildarverðmætinu. Norður-Ameríka kemur þar á eftir með 10% og Asía með 7%. Ef horft er til einstakra landa þá er Bretland mikilvægasta viðskiptalandið en þangað fór fjórðungur alls útflutningsverðmætis sjávarafurða. Þar á eftir komu Bandaríkin, Spánn, Danmörk og Portúgal. Af einstökum afurðaflokkum þá skilaði frysting 51% útflutningsverðmætis, saltaðar afurðir komu næstar með 18%, og hlutdeild mjöls og lýsis nam 16%.