Útflutningur sjávarafurða nam 67,5 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi borið saman við 71,8 milljarða króna á sama fjórðungi á síðasta ára á föstu gengi. Samdrátturinn nam 6% sem var snöggtum minni samdráttur en á öðrum fjórðungi, þegar hann nam 11,4%. Samdrátturinn nú var sá þriðji í röð en á fyrsta ársfjórðungi nam hann 4,1%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri Hagsjá Hagræðideildar Landsbankans.

Í Hagsjánni segir að samdráttinn nú á þriðja fjórðungi megi fyrst og fremst rekja til minna útflutningsverðmætis nokkurra tegunda. Útflutningsverðmæti makríls hafi dregist mest saman, eða um 1,3 milljarða króna á föstu gengi. Samdrátturinn hafi þv´ i numið 12,8%.

„Útflutningsverðmæti ufsa dróst saman um 1,2 ma.kr., eða rúman þriðjung, en útflutt magn í tonnum talið dróst saman um 19%. Útflutningsverðmæti karfa dróst saman um 1,2 ma.kr., eða tæplega 30%, en útflutt magn dróst saman um tæp 18%. Útflutningsverðmæti kolmunna dróst einnig saman um 1,2 ma.kr. eða sem nemur rúmum fjórðungi. Útflutt magn á kolmunna í tonnum talið dróst einnig saman um fjórðung,“ segir í Hagsjánni.

Mesta aukning útflutningsverðmætis hafi verið í síldarafurðum, en þær jukust um 1,5 milljarða króna, eða um tæplega 120% milli ára. Þá miklu aukningu megi fyrst og fremst rekja til meiri útflutnings í tonnum talið, en aukningin nam 144%. Þá hafi útflutningsverðmæti þorsks aukist um 1,4 milljarða, eða 4,7%, en útflutt magn í tonnum aukist um 13%.