Tæknifyrirtæki í sjávarútvegi gera ráð fyrir að útflutningur vaxi um 10-15% í ár á meðan stöðnun ríkir innanlands. Fyrirtækin, sem eru um 70 talsins, fluttu út tækjabúnað eða vörur tengdar honum fyrir rúma 16 milljarða króna á síðasta ári. Áætlað er að hann verði um 20 milljarðar í ár og hefur gengið vel það sem af er árinu, samkvæmt athugun Íslenska sjávarklasans á veltu tæknifyrirtækja í klasanum.

Í fréttatilkynningu frá Íslenska sjávarklasanum segir að mikill vöxtur sé í útflutningi á ýmsum tækjum og búnaði fyrir skip, og útflutningi tæknibúnaðar tengdum fiskvinnslu. „Mest aukning er  í sölu ýmis konar búnaðar í skip. Þar er meðal annars um að ræða tækni sem bætir orkunýtingu skipa, ýmis hugbúnaður  o.fl.    Útflutningur á tækjum og búnaði í skip  var um 1,8 milljarðar kr. árið 2010 en  áætlanir fyrirtækjanna gera ráð fyrir að þessi  útflutningur nemi að minnsta kosti 2,5 -2,6 milljörðum kr. á árinu 2011 en það er rösklega  40% aukning. Útflutningur  tæknibúnaðar tengdum fiskvinnslu  er áætlað að aukist úr 6 milljörðum kr. árið 2010 í rúma 8 milljarða kr. árið 2011 eða um tæpan þriðjung. Flestar tæknigreinar sjávarklasans virðast í sókn í útflutningi hvort sem er i framleiðslu fiskvinnsluvéla, kælitækni, hugbúnaðargerð  eða  grænni tækni.  Tæknifyrirtæki sem þróað hafa hvers konar umbúðir, pakkningar eða veiðarfæri  gera ráð fyrir minni vexti eða á bilinu 5-10%.  Ekki fengust upplýsingar um útflutning bátasmiðja. “

Í heild er áætlað að velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum verði um 31 milljarður í ár og vaxi um 15% frá fyrra ári.