Hagstofa Íslands birti í dag niðurstöðu rannsóknar varðandi vöruútflutning til Hollands. Niðurstaða rannsóknar Hagstofu var að útflutningur til Rússlands í gegnum Holland hafi ekki verið vanmetinn.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sagði í sumar að stjórnvöld hafi misreiknað áhrifin sem viðskiptabann Rússa hefði á sjávarútveginn. Tölur Hagstofunnar hafi sgat að viðskipti við Rússland hafi verið um 20 til 23 milljarðar. Kolbeinn sagði:

„En þá gleymist að taka inn í myndina að Hagstofan horfir alltaf á fyrstu löndunarhöfn. Í staðinn fyrir að taka inn tvær stórar uppskipunarhafnir í Evrópu þá er þeim sleppt. Og þá vantar inn í þetta hátt í tíu milljarða.“

Í niðurstöðu rannsóknar Hagstofunnar segir:

„Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að ekki er unnt með auknum upplýsingum frá útflytjendum að finna endan­legt ákvörðunarland fyrir meirihluta þess útflutnings sem fer til Niðurlands þar sem mikilvægir útflutningsaðilar á iðnaðarvöru (aðallega áli og álafurðum) búa ekki yfir þeim upplýsingum. Því er ljóst að flutningur um Rotterdam hefur mikil áhrif á niðurstöðu um landaskiptingu útflutnings. Í tilviki útflutnings á sjávarafurðum var hins vegar í flestum tilvikum hægt að fá upplýsingar um endanlegt ákvörðunarland.“

Samkvæmt niðurstöðu Hagstofunnar virðist því ekkert benda til þess að útflutningur til Rússlands sé vanmetin.