Rentenbank gaf út krónubréf fyrir tvo milljarða króna til tveggja ára í dag, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Þetta er fyrsta krónubréfaútgáfan í rúman mánuð. Síðasta útgáfan var þann 14. febrúar og stóð gengisvísitala krónunnar þá í 106 stigum sem er um 11% sterkara gengi en er í dag, segir greiningardeildin.

Útgefandinn, Rentenbank, er þýskur heildsölubanki í eigu ríkisins.

Það hafa alls verið gefin út krónubréf fyrir um 213 milljarða frá ágúst 2005, þar af rúmlega 70 milljarðar frá áramótum.

Krónubréfaútgáfa er að erlendir kaupendur taka óvarða stöðu með krónunni og fá íslenska vexti að launum sem eru 7% hærri en þekkist víðast hvar erlendis, segir greiningardeildin.

Miðað við allar efnahagsforsendur ætti að vera mun hagstæðara að kaupa krónubréf nú en áður þar sem að gengi krónunnar er nú 11-15% veikara en það var um miðbik vetrarins.