Vegna óvissu um kjarasamninga er lítið hægt að segja til um langtímahorfur á skuldabréfamarkaði fyrir utan þá staðreynd að útlit er fyrir að hlutdeild ríkisbréfa og skuldabréfa með ríkisábyrgð muni hægt og bítandi dragast saman. Útistandandi skuldabréf á vegum hins opinbera og Íbúðalánasjóðs eru um 75% af markaðnum í heild sinni og um 90% af öllum bréfum með viðskiptavakt.

Í stefnu í lánamálum ríkisins sem kom út á dögunum sést að það er tugmilljóna jákvæð lánsfjárþörf til næstu ára og ríkissjóður er búinn að fjármagna tæplega 150 milljarða fjárlagahalla. Að sögn Hrafns Steinarssonar hjá Greiningardeild Arion banka gefur það ekki endilega til kynna samdrátt í útgáfu markaðsbréfa en að afganginum verði beint að því að greiða ómarkaðshæfar skuldir.

„Eina þörfin á útgáfu verður þá útgáfa á útistandandi RB flokkum,“ segir hann. „Það þýðir að ríkissjóður er kominn í mjög þægilega stöðu. Hann nýtur arðgreiðslna frá Landsbankanum og fjármálaráðherra talar um auðlindasjóð á ársfundi Landsvirkjunar. Manni heyrist að tónninn í fjármálaráðuneytinu sé að það sé verið að passa að þetta fari ekki í aukin ríkisútgjöld heldur verði þetta tekið til hliðar og beint í eitthvað eins og niðurgreiðslu skulda. Þannig að hvað varðar lánsfjárþörf ríkisins þá er ekki þörf á meiri útgáfu fram undan.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .