Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, mælti í dag fyrir á Alþingi frumvarpi sem felur í sér að útgáfa starfsleyfa flyst frá ráðuneyti til landlæknis. Er þetta liður í tveggja ára áætlun heilbrigðisráðuneytisins um aðgerðir til einföldunar opinberra reglna og stjórnsýslu.

Ráðherra gat þess að að annars staðar á Norðurlöndum væru það undirstofnanir ráðuneyta sem sjá um útgáfu starfsleyfa og vottorða sem tengdust þeim og sagði í gangi undirbúningsvinnu vegna laga- og reglugerðabreytinga að því er varða starfsleyfi heilbrigðisstétta hjá ráðuneytum.

Allar heilbrigðisstéttir heyri undir ein lög

„Með þessu frumvarpi er þó aðeins tekið fyrsta skrefið í átt til einföldunar á þessu sviði.  Í heilbrigðisráðuneytinu hefur verið unnið að samningu lagafrumvarps um heilbrigðisstéttir með það að markmiði að þær muni allar heyra undir ein lög.  Nú er í gildi fjöldi laga og reglugerða um heilbrigðisstéttir sem nánast öll byggja á læknalögum og vísa í þau.  Einn lagabálkur um heilbrigðisstéttir, eins og stefnt er að, mun því leiða til enn frekari einföldunar,” sagði Guðlaugur í ræðu sinni.