Útgáfa á tónlist dróst saman á milli áranna 2006 og 2010, samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar . Árið 2006 kom út 281 hljóðrit með tónlist og hafði útgáfan þá aldrei verið meiri. Fyrir þremur árum var útgáfan komin niður í 232 hljóðrit.

Hagstofan fjallar í dag um breytingar og þróun í útgáfumálum á vef sínum. Þar segir m.a. að með tilkomu geisladiska undir lok níunda áratugar síðustu aldar hljóp verulegur vöxtur í útgáfu hljóðrita. Á árinu 1995 voru ríflega tvöfalt fleiri hljóðrit gefin út hér á landi miðað við árið 1990. Hin síðari ár hefur árleg útgáfa að mestu staðið í stað. Frá því um miðjan síðasta áratug hefur útgáfa á hverja 1,000 íbúa haldist nær stöðug, eða á bilinu 0,7–0,8 hljóðrit á hverja 1.000 íbúa.

Árið 2010 skiptist hljóðritaútgáfan eftir efni þannig að þrír fjórðu hlutar útgefinna hljóðrita innihéldu dægurtónlist af ýmsu tagi. Samanlögð útgáfa sígildrar tónlistar og ljóða- og kórsöngs nam 15 af hundraði. Útgáfa annarrar tónlistar var mun umfangsminni. Hlutfallsleg skipting milli tónlistartegunda hefur verið svipuð um árabil.