Rit Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki , var gefið út í dag, en þann 6. október var greint frá því að útgáfu ritsins yrði frestað. Var það gert vegna þess að ekki tókst að ljúka samráðs- og kynningarferli varðandi mögulega nauðasamninga sem fjalla átti um í viðauka ritsins.

Fjármálastöðugleiki hefur nú verið gefinn út, en áðurnefndur viðauki er ekki hluti af útgáfunni. Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að viðaukinn, þar sem grein átti frá tillögum kröfuhafa um hvernig þeir hygðust uppfylla stöðugleikaskilyrði stjórnvalda og mati á heildaráhrifum mögulegra nauðasamninga á grundvelli þeirra, verði birtur síðar.

Ekki hafi verið unnt að ljúka mati á undanþágubeiðnum einstakra búa gömlu bankanna fyrr en endanleg gögn sem haft gætu áhrif á matið liggja fyrir. Seðlabankinn mun birta sérstaklega niðurstöður mats á áhrifum undanþágubeiðnanna á greiðslujöfnuð, stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika þegar greiningu bankans er lokið og hún hefur verið kynnt fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptanefnd.