Önnur útgáfa af iPad, spjaldtölvu Apple, kemur í verslanir í júní næstkomandi, samkvæmt núverandi áætlun. Til stóð að spjaldtölvan yrði tilbúin í apríl en vegna vandræða við framleiðslu hefur útgáfu verið frestað. Reuters fréttastofa greinir frá.

Framleiðandinn Hon Hai hefur lent í vandræðum vegna nýrrar hönnunar spjaldtölvunnar, sem enn ríkir mikil leynd yfir. Hvorki framleiðandinn né Apple hafa viljað tjá sig um málið en Reuters hefur undir höndum minnispunkta sem staðfesta seinkunina.

Vegna seinkunarinnar stendur til að framleiða alls um 23 milljónir eintaka af iPad í ár. Ætlunin var að framleiða 30,6 milljónir eintaka.

Áður hefur verið greint frá því að nokkrar útlits- og tæknibreytingar verða gerðar á næstu kynslóð spjaldtölvunnar. Til að mynda verða staðsettar myndavélar á framhlið og bakhlið. Þá verður nýr iPad bæði þynnri og léttari.