Tap varð á rekstri Árvakurs, útgáfufélagi Morgunblaðsins, upp á 205 milljónir króna á árinu 2011. Það er 125 milljónum minna en árið 2010 þegar félagið tapaði 330 milljónum króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag þar sem farið er yfir ársreikning Árvakurs.

EBITDA, hagnaður fyrir afskriftir og vexti, var jákvæð um 40 milljónir króna á síðasta ári. Það er viðsnúningur frá árinu 2010 þar sem EBITDA var neikvæð um 97 milljónir króna.

„Félagið hefur náð miklum árangri undanfarin ár í að bæta rekstrarafkomuna en hún var á þennan mælikvarða neikvæð um 575 milljónir króna árið 2008, neikvæð um 486 milljónir króna árið 2009, neikvæð um 97 milljónir króna árið 2010 og svo loks jákvæð um 40 milljónir króna á árinu 2011. Áætlanir ársins 2012 gera ráð fyrir 70 milljóna króna rekstrarhagnaði og er reksturinn á áætlun það sem af er árinu," segir Óskar Magnússon útgefandi Morgunblaðsins um reksturinn í Morgunblaðinu í dag.

Í blaðinu kemur einnig fram að hlutafé í Þórsmörk, móðurfélagi Árvakurs hafi verið aukið á árinu um 540 milljónir króna. Nýir hluthafar hafa komið inn í hópinn, þar á meðal útgerðarfélagið Þingey hf. á Höfn í Hornafirði sem er nú eigandi að 50 milljóna króna hlutafé. Krossanes hf., dótturfélag Samherja, er í dag stærsti einstaki hluthafinn í Árvakri.