Þýski þróunar- og fjárfestingarbankinn KfW, sem er í eigu opinberra aðila þar í landi, gaf út krónubréf að nafnverði 5 milljarða króna með þriggja ára líftíma í morgun. KfW er stærsti útgefandi krónubréfa og hefur gefið út tæplega 120 milljarða króna frá upphafi, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Útgáfur á nýjum krónubréfum tínast inn þessar vikurnar og í ágúst hafa verið gefin út krónubréf að nafnvirði 43 milljarðar króna,? segir greiningadeildin.

Hún segir að það sem af er ári hafa verið gefin út krónubréf að nafnvirði 233 milljarða króna og ríflega 69 milljarða króna hafa verið á gjalddaga á fyrstu átta mánuðum ársins.

?Í heild eru krónubréf með gjalddaga á þessu ári að nafnverði rúmlega 167 milljarða króna og er því krónubréfaútgáfa á árinu þegar orðin meiri en sem nemur upphæð á gjalddaga. Það sem eftir lifir árs eru krónubréf að nafnvirði 97,9 milljarða króna á gjalddaga.

Langstærstur hluti þess eða 82,5 milljarða króna er með gjalddaga í september. Ætla má að allt að 18 milljarða króna. af nýjum útgáfum í ágúst séu framlenging á útgáfum með gjalddaga í september og fastlega má búast við áframhaldandi krónubréfaútgáfu á næstu vikum,? segir greiningardeildin.

Allsterkt samband er á milli krónubréfaútgáfu og gengis krónu og hefur útgáfa krónubréfa stutt við gengi krónunnar undanfarin misseri, að sögn greiningardeildarinnar.