Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hruni á fateigna- og verðbréfamörkuðum og minnkandi hagvexti í Bretlandi kjósi Bretar að ganga út úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin verður í næsta mánuði.

Í yfirlýsingu frá sjóðnum segir að yfirvofandi kosningar séu nú helstu ógn bresks efnahagskerfis sem geti haft í för með sér samdrátt og óvissu á svæðinu.  Atkvæði með útgöngu geti þannig valdið gjaldeyriskreppu og skyndilegri stöðvun á flæði fjármagns til húsnæðis- og fjármálakerfis landsins.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lýsir yfir áhyggjum vegna atkvæðagreiðslunnar en í síðasta mánuði sögðu talsmenn hans að útganga Bretlands gæti haft í för með sér alvarlegan skaða um allan heim.