Boðað hefur verið til þingkosninga í Bretlandi í þriðja sinn á fjórum árum eftir að enn hefur þurft að fresta útgöngu eyríkisins úr Evrópusambandinu. Engin samstaða hefur náðst um málið á þinginu, sem endurspeglast ef til vill best í mjög svo ólíkri stefnu flokkanna varðandi Brexit.

Málið á sér orðið langa og afar flókna forsögu, en óhætt er að segja að bresk stjórnmál hafi um lítið annað snúist frá því að þjóðin afréð með naumindum í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið eftir tæpa hálfrar aldar aðild.

Brexit-stefnan afar ólík
Kosningabaráttan er rétt að hefjast og því erfitt að spá fyrir um úrslit kosninganna, og þar af leiðandi endanleg afdrif samnings Johnsons og Brexit almennt.

Nái Íhaldsflokkurinn hreinum meirihluta verður að telja líklegt að samningur Borisar Johnson forsætisráðherra verði afgreiddur og samþykktur af þinginu og útgangan gangi í kjölfarið formlega í gegn. Flokkurinn mælist afgerandi stærstur eins og sakir standa með 36% fylgi, en hvort það myndi skila honum meirihluta er allskostar óvíst.

Samband atkvæðafjölda og þingsæta er heldur lauslegra þar en hér, þar sem aðeins einn þingmaður er kosinn í hverju kjördæmi. Sögulega hefur þetta þó fremur skilað stóru flokkunum hlutfallslega fleiri þingsætum en atkvæðum.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, stærsta stjórnarandstöðuflokksins og hins sögulega stóra flokksins, hefur sagst vilja endursemja og halda í kjölfarið aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Flokkurinn mælist nú næststærstur með 24% fylgi, en talið er hugsanlegt að hann tapi fylgi til smærri flokka með meiri afgerandi stefnu varðandi Brexit.

Frjálslyndir demókratar, sem hafa sögulega verið litlir í samanburði við risana tvo sem á undan voru nefndir, vilja hreinlega afturkalla 50. grein Lissabon-sáttmálans og þar með útgönguferlið. Þeir mælast um þessar mundir með um 18% fylgi.

Varla þarf að fjölyrða um stefnu Brexit-flokks Nigel Farage, fyrrverandi leiðtoga UKIP og ötuls baráttumanns fyrir útgöngu, en flokkurinn mælist með 11% fylgi.

Leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, Nicola Sturgeon, segir kosningarnar tækifæri fyrir Skotland til að ákvarða eigin framtíð. Haldin var þjóðaratkvæðagreiðsla þar árið 2014 um sjálfstæði landsins frá Bretlandi, en kjósendur höfnuðu því með 55% atkvæða gegn 45%.

Meirihluti Skota kaus hins vegar með áframhaldandi veru í Evrópusambandinu, og Sturgeon telur því forsendur hafa breyst og vill aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Flokkurinn mælist með um 4% fylgi, en hann býður aðeins fram í Skotlandi.

Það er því ljóst að enn getur allt gerst, og ekki sér fyrir endann á þeirri atburðarás sem af stað var hrundið þegar breska þjóðin ákvað að yfirgefa Evrópusambandið fyrir meira en þremur árum síðan.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .