Nú hefur útgefandi breska dagblaðsins Daily Mail lýst því yfir að hann sé áhugasamur um að kaupa netrisann Yahoo. Útgefandinn, sem heitir Daily Mail and General Trust, á í viðræðum við aðra mögulega kaupendur, en segja að þótt mögulegt sé að tilboð verði gert í Yahoo gætu áætlanirnar runnið út í sandinn.

Ástæða þessa áhuga DMGT er aðallega sú að vefútgáfa Daily Mail hefur gengið sérstaklega vel síðustu misserin. Ef til þess kæmi að DMGT og meðfjárfestar tækju þá ákvörðun að kaupa fyrirtækið gæti svo orðið að Yahoo og Daily Mail auk vefsíðunnar Elite Daily sameinuðu krafta sína í fjölmiðlasamsteypu.

Yahoo hefur kannað möguleikann á því að selja kjarnastarfsemi sína nýlega, en reksturinn hefur gengið brösulega undir stjórn Marissu Mayer. Samkeppnin við Google gæti eflaust gengið betur, en fyrirtækið hefur verið rekið í 4,6 milljarða Bandaríkjadala tapi síðustu tvö árin - eða í 562 milljarða króna tapi.