Kristín Þorsteinsdóttir
Kristín Þorsteinsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Við höfum ekkert gefið upp um það hvað við erum að velta fyrir okkur og höfum ekki nefnt neinar dagsetningar í því sambandi,“ segir Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri 365, í samtali við VB.is spurð um það hvort og hvenær nýr ritstjóri verði ráðinn til að setjast í ritstjórastól Fréttablaðsins í stað Ólafs Þ. Stephensen , sem sagði upp á dögunum.

Ólafur sagði upp í miklu umróti hjá fjölmiðlafyrirtækinu en í sömu viku hafði Mikael Torfason , sem var aðalritstjóri 365, hætt þar. Nokkur fjöldi annarra starfsmanna hefur hætt hjá 365 upp á síðkastið, þar á meðal er forstjórinn Ari Edwald að hætta auk þess sem sjónvarpsstjóranum Frey Einarssyni var sagt upp. Þá eru fleiri hættir á ýmsum sviðum fyrirtækisins.

Fram kemur í netritinu Kjarnanum að Kristín rói nú að því öllum árum að ráða inn nýtt stjórnendateymi og sé hún sögð vilja að kona setjist í ritstjórastól Fréttablaðsins.

„Við erum með aðalritstjóra og fréttaritstjóra eins og er. Svo er fréttastofan öll þéttskipuð hæfileikaríku fólki sem stendur sig gríðarlega vel. En ég hef hingað til ekki farið leynt með vilja minn til þess að fá konur til þess að gegna lykilstöðum hjá 365. Þar hefur engin breyting orðið á. Við sjáum bara hvað tíminn leiðir í ljós," segir Kristín í samtali við VB.is.