Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Þórsberg ehf. til að greiða Skarfakletti ehf. um 73,5 milljónir króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar, gegn afhendingu stefnanda á 25% aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju.

Um var að ræða eftirstöðva kaupverðs á aflaheimildum. Ekki var fallist á þau rök Þórsbergs að hluta samnings yrði vikið til hliðar á grundvelli samningalaga.

Þá var ekki fallist á að sýkna bæri vegna aðildarskorts Þórsbergs.

Í málinu var deilt um kaup á aflaheimildum, þar sem Skarfaklettur var seljandi. Ágreiningur var um efndir á samningi þeim sem aðilar gerðu, hvort Þórsberg væri réttur aðili að málinu, og hvort skilyrði væru til að víkja samningnum til hliðar í heild eða að hluta.

Var kaupverðir tæplega 216 milljónir króna sem greiðast skyldi inn á reikning Kvóta- og skipasölunnar ehf., þegar tilflutningur aflaheimildanna hjá Fiskistofu hefði farið fram.

Viðskiptabanki Skarfakletts, Landsbanki Íslands, sendi tölvuskeyti til Kvóta- og skipasölunnar í apríl í fyrra og ítrekaði að enn væru ógreiddar um 88.6 milljónir af kaupverðinu.

Fiskistofa staðfesti flutning 25% aflahlutdeildar í Skagafjarðarrækju um miðjan apríl 2007 en flutning á öðrum aflahlutdeildum hafði Fiskistofa staðfest áður.

Þórsberg sendi bréf til Fiskistofu skömmu síðar, þar sem tilkynnt var að flutningur aflaheimilda vegna Skagafjarðarrækju hefði farið fram án vitneskju forsvarsmanna fyrirtækisins. Var í bréfinu farið fram á af hálfu stefnda að aflahlutdeildarfærslan yrði bakfærð án tafar.

Með bréfi Fiskistofu 22. maí 2007 var Skarfakletti tilkynnt um kröfu Þórsbergs um bakfærslu á aflahlutdeild í Skagafjarðarrækju og gefinn frestur til 1. júní 2007 til að gera athugasemdir við það.

Mótmælti lögmaður Þórsbergs ofangreindri bakfærslu, eins og fram kemur í ódagsettu, framlögðu bréfi lögmanns hans.

Fiskistofa tók ákvörðun um að afturkalla tilflutning af framangreindri Skagafjarðarrækju frá Arney HU-36 til Kóps BA-175 og var aflahlutdeildin færð að nýju á Arney HU-36.

Bakfærslan fór fram í júníbyrjun 2007.