Reykjanes hefur í gegnum tíðina verið mikið útgerðarsvæði og hafa íbúar löngum byggt lífsafkomu sína í talsverðum mæli á sjávarútvegi. Á síðustu árum hefur útgerð þó dregist saman á Suðurnesjum.

„Það er alveg rétt, útgerð á Suðurnesjum hefur minnkað. Það var miklu meiri útgerð í Reykjanesbæ, það var bara sjávarpláss, en þetta er ekki orðið neitt í dag,“ segir Björk Þorsteinsdóttir hjá útvegsmannafélagi Suðurnesja. Undir þetta tekur Eiríkur Tómasson, forstjóri Þorbjarnar hf. Hann segir að hér áður hafi verið mjög sterkar útgerðir í Keflavík en kvótinn hafi verið seldur í burtu. „Þetta fór að hnigna þegar kvótakerfið kom. Í Reykjanesbæ unnu flestir í einhverju tengdu flugvellinum og hernum, þess vegna átti útgerðin undir högg að sækja,“ segir Eiríkur.

Hvergi á Suðurnesjum er meiri útgerð en í Grindavík. Á lista yfir 100 stærstu útgerðarfyrirtæki landsins eru sextán frá Suðurnesjum. Af þeim eru níu í Grindavík. Munar þar mest um stóru útgerðarfyrirtækin Þorbjörn og Vísi en þess utan eru mörg minni fyrirtæki í bæjarfélaginu. „Það er engin spurning að það er gott að gera út frá Grindavík. Þeir sem reka fyrirtæki hér hafa áhuga og metnað til að halda þessu heima við,“ segir Eiríkur.

Nánar er fjallað um málið í Reykjanes blaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.