Útgerðarfyrirtækið Bergur Huginn í Vestmannaeyjum hagnaðist um 571,8 milljónir króna í fyrra. Til samanburðar nam hagnaður útgerðarinanr 746 milljónum króna árið 2010.

Fram kemur í uppgjöri fyrirtækisins að tekjur drógust saman á milli ára, fóru úr rétt rúmum 2,2 milljörðum í rétt rúma tvo milljarða.

Eignir Berg Hugins námu 4.461 milljónum króna í fyrra og er það 1,3% aukning á milli ára.

Á sama tíma var eigið fé útgerðarinnar neikvætt um rúma 2,8 milljarða króna. Það er engu að síður betri staða en árið 2010 þegar eigið fé var neikvætt um 3,4 milljarða. Á móti eignum námu skuldir félagsins, sem voru að nær öllu leyti í erlendri mynt, 7,3 milljörðum króna um síðustu áramót.

Endurútreikningar og framvirkir samningar skila hagnaði

Fram kemur í uppgjöri útgerðarinnar að fjármagnsgjöld og neikvæður gengismunur dró úr hagnaði hennar í fyrra. Fjármagnsgjöld fóru úr 180,8 milljónum króna árið 2010 í 272 milljónir króna í fyrra. Þá nam gengistap 451 milljón króna. Á sama tíma er endurútreikningur á gengislánum færður til hagnaðar upp á 333,6 milljónir króna. Sama máli gegnir um framvirka samninga um afleiðuviðskipti en rúm 421 milljón króna er færð á hagnaðarhliðina. Þessar samtals tæpu 755 milljóna króna voru ekki í hagnaðartölunum í hittifyrra.

Óvissa um afleiðusamninga upp á milljarða

Í ábendingarmálsgrein endurskoðenda við uppgjör Bergs Hugins segir, að án þess að gera um það fyrirvara er vakin athygli á ágreiningi félagsins og Glitnis banka um skuldbindingar vegna framvirkra gjaldmiðlasamninga. Hins vegar er ábending um það að óvissa ríki um rekstarhæfi félagsins vegna þeirra miklu áhrifa sem gengisbreytingar íslensku krónunnar hafa haft á fjárhagsstöðu útgerðinnar.

Þá er á það bent í skýringum við uppgjörið að Glitnir banki hafi lagt fram yfirlit um meint afleiðuviðskipti félagsins, þar sem tíu tilgreindir afleiðusamningar voru taldir vera í tapi upp á 1.359.351.800 milljónir króna. Samningaviðræður hafa átt sér staða á milli aðila um uppgjör á skuldbindingunni en engin niðurstaða hafi fengist.

„Margt hefur skýrst varðandi uppgjör sjávarútvegsfélaga á afleiðusamningum við gömlu bankana á árinu 2011. Það er mat stjórnar félagsins að minni líkur en meiri séu á því að félagið þurfi að greiða skuldbindinguna að fullu og ákvað hún því að lækka skuldbindinguna um 421 milljón króna og stendur hún því í kr. 921.114.500. Samt sem áður er til staðar ágreiningur sem snýr að þremur efnisþáttum; Í fyrsta lagi um það hvort samningarnir séu gildir og bindandi fyrir félagið, í annan stað hvort í þeim tilvikum þar sem samningar teljist hafa komist á sé réttilega tilgreint hvort um var að ræða kaup eða sölu á gjaldeyri og loks orkar tvímælis við hvaða gengisvísitölu miða ber uppgjör þeirra samninga sem staðfest kann að verða að komist hafi á.“