Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan hækkuðu bæði um meira en 4% í Kauphöllinni í dag eftir að hafa skilað uppgjöri fyrir annan ársfjórðung eftir lokun markaða í gær. Gengi Síldarvinnslunnar, sem hagnaðist um 3,9 milljarða á öðrum fjórðungi ársins , er nú komið í 71,2 krónur á hlut eða um 18,7% yfir genginu í útboði félagsins fyrir skráningu á markað í maí síðastliðnum. Brim, sem hagnaðist um 1,8 milljarða á síðasta fjórðungi, er einungis 2,8% frá sínu hæsta gengi frá skráningu eftir hækkun dagsins.

Tvö önnur félög á aðalmarkaði Kauphallarinnar skiluðu einnig uppgjöri í gær. Origo hækkaði um 2,9%, þó í einungis 58 milljóna veltu. Gengi félagsins stendur nú í 53,5 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Upplýsingatæknifyrirtækið skilaði 247 milljóna hagnaði á fyrri helmingi ársins . Origo tilkynnti um hádegisleytið í dag um kaup á 70% hlut í Eldhafi ehf. , innflutningsaðila á Apple vörum.

Iceland Seafood International (ISI) lækkaði um 3,1% í dag, mest allra félaga Kauphallarinnar, en velta með bréf félagsins námu einungis 37 milljónum. ISI hagnaðist um 107 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi . Þrátt fyrir lækkun dagsins þá hefur hlutabréfaverð Iceland Seafood tvöfaldast á einu ári.

Mesta veltan í Kauphöllinni var með smásölufyrirtækin Haga og Festi en bæði gengi beggja fyrirtækja hafa aldrei verið hærri. Hagar hækkuðu um 2,2% í 760 milljóna veltu og Festi hækkaði um 1,5% í 842 milljóna viðskiptum.