Útgerðarfyrirtæki í Þorlákshöfn eiga að óbreyttu að greiða nálægt 300 milljónum króna í veiðigjald og vegna veiddra aflaheimilda á yfirstandandi fiskveiðiári.

Jón Páll Kristófersson, rekstrarstjóri Ramma í Þorlákshöfn og formaður Útvegsmannafélags Þorlákshafnar, líkir gjaldinu við landsbyggðarskatt sem samsvari nærri helmingi allra útsvarstekna Sveitarfélagsins Ölfuss á þessu ári. Hann segir útgerðarfyrirtækin ekki eiga þessa peninga til og því verði að taka þá beint úr rekstri viðkomandi fyrirtækis.

Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði Sunnlenska fréttablaðsins sem kom út í dag. Þar segir m.a. að fyrstu gíróseðlarnir hafi borist. Fyrirtækin eiga reyndar möguleika á að fá afslátt af gjaldinu.

„Þessi fjármunir eru teknir beint úr rekstri viðkomandi félaga en ekki úr einhverjum földum sjóðum, þeir eru ekki til því miður. Þessir fjármunir eru því teknir úr þessu sveitarfélagi [..] og ólíklegt að við sjáum þá nokkuð aftur. Krafan um aukna hagræðingu, fækkun skipa og sameiningu fyrirtækja verðu renn meiri við þessa auknu skattlagningu og fjölda starfa því settur hættu,“ segir Jón Páll í samtali við blaðið.