Stilla útgerð og Guðmundur Kristjánsson hafa stefnt fyrrverandi stjórnarformanni Vinnslustöðvarinnar VSV ásamt þremur úr eigendahópi félagsins. Félagið og Guðmundur eru hluthafar í Vinnslumiðstöðinni.

Frá þessu er greint á vefsvæði Eyjafrétta en þar kemur fram að krafist sé ríflega 220 milljóna króna í skaðabætur vegna meints tjóns sem kærendur telja að Vinnslustöðin hafi orðið fyrir við kaup á 35% eignarhlut í Ufsabergi útgerð árið 2008. Kaupin leiddu síðar til ákvörðunar um samruna fyrirtækjanna á hluthafafundi Vinnslustöðvarinnar í september 2011. Samruninn gekk í gegn þann 9. febrúar síðastliðinn þegar Ufsaberg útgerð var afskráð úr fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og sameinuð Vinnslustöðinni. Sóknaraðilar telja að meirihluti eigenda Vinnslustöðvarinnar hafi samþykkt að greiða óeðlilega hátt verð fyrir Ufsaberg-útgerð.

Forsaga málsins er sú að í gær vísaði Hæstiréttur frá kröfu Stillu útgerðar, KG Fiskverkunar og Guðmundar Kristjánssonar, hluthafa í Vinnslustöðinni, um lögbann á samruna Vinnslustöðvarinnar og Ufsabergs-útgerðar ehf. Málsvextir voru þannig að sóknaraðilar töldu þá ákvörðun hluthafafundar að sameina Vinnslustöðina og Ufsaberg hafa verið haldna verulegum form- og efnisannmörkum og því ógilda. Sóknaraðilar sögðust myndu höfða mál til ógildingar á ákvörðuninni á grundvelli laga um hlutafélög. Slíkur málarekstur tæki þó fyrirsjáanlega langan tíma og yrði samruni félaganna um garð genginn þegar niðurstaða um lögmæti ákvörðunarinnar gæti legið fyrir. Hæstiréttur vísaði málinu frá á þeim grundvelli að þar sem athafnir þær sem krafist var lögbanns við hefðu þegar farið fram hefðu sóknaraðilar ekki lögvarða hagsmuni af kröfum sínum í málinu.