Frumvarp til laga um kvótasetningu makríls er í vinnslu í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Teitur Björn Einarsson, lögmaður hjá Opus lögmönnum ehf., er með mál nokkurra smábátaútgerða á sínu borði. Þetta eru útgerðir krókabáta sem byrjuðu strax árið 2010 að veiða makríl og hafa því nokkurra ára reynslu af veiðunum. Ef þær verða undanskildar úthlutun varanlegra aflaheimilda munu útgerðirnar leita réttar síns segir Teitur Björn.

Fyrir áramót sagði Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra að lagafrumvarpið yrði lagt fram í vetur en nú er það ekki víst. Í svari Jóhanns Guðmundssonar, skrifstofustjóra í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið segir að unnið sé að gerð frumvarpsins. Jafnframt segir að vinnan hafi dregist „ekki síst vegna strandríkjaviðræðna um makríl, sem vonast var til að ljúka nú í vetur en er nú með öllu óljóst hvenær lýkur auk þess sem aðrir þættir koma hér við sögu“.

Í samtali við RÚV 18. nóvember sagði Sigurður Ingi að nú væri fullkomið tækifæri til að setja makrílstofninn í sama pott og aðra fiskistofna sem veiddir væru hér við land. Hann sagði að í raun hvíldi skylda á ráðuneytinu að kvótasetja makríl á grundvelli gildandi laga. Kvótanum yrði úthlutað á grundvelli veiðireynslu og hann yrði framseljanlegur. Fram til þessa hefur makrílveiðunum verið stjórnað með útgáfu veiðileyfa sem byggjast á reglugerðum til eins árs í senn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .