Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), segir að olíukostnaður útgerðarinnar árið 2008 hafi verið áætlaður 17% af tekjum. Hann verði minni á árinu 2009.

„Áætlun mín fyrir 2009 er heldur skárri hvað olíuna snertir en í fyrra, þar sem hún hefur heldur lækkað. Ég hef verið að spá að þessi kostnaðarliður verði um 13 til 14%.“

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki munu því væntanlega greiða 14,5 til 15,5 milljarða í olíukostnað á yfirstandandi ári í stað 16,8 milljarða króna á árinu 2008. Nemur það um 3% kostnaðarlækkun sem hlutfall af aflaverðmæti.

Nýr umhverfisskattur mun að mati Sveins nema um þrem krónum á hvern olíulítra og dregur því úr batanum. Útgerðin notar um 235 til 250 milljónir lítra af olíu á ári og mun skatturinn því kosta hana um 700 til 750 milljónir króna á næsta ári.