Stærstu útgerðarfyrirtæki landsins hafa á síðustu misserum fært uppgjörsmynt úr krónum yfir í aðra gjaldmiðla á borð við evru og Bandaríkjadal. Þetta er gert til þess að endurspegla betur tekjur og skuldir félaganna, sem eru að mestu leyti í erlendum myntum. Sex af tíu stærstu útgerðum landsins hafa fært uppgjörsmynt sína yfir evrur.

Jafnframt hefur þetta sláandi áhrif á eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna þótt ávallt sé verið að lýsa sama raunveruleikanum. "Afkoman verður stöðugri. Hún verður ekki bundin af endalausum gengissveiflum krónunnar vegna óráðsíu hér heima," segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, tekur í sama streng en 75%-80% af afkomu fyrirtækisins eru háð erlendri mynt. "Þetta er miklu eðilegri mælikvarði á rekstrinum. Öll okkar fjármögnun er í erlendri mynt og sömuleiðis allar tekjur."