*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 20. október 2017 12:36

Útgjaldaaukning hefði áhrif á verðlag

Samtök atvinnulífsins hefur áhyggjur af því að ýtt verði undir sveiflur í hagkerfinu með milljarða kosningaloforðum.

Ritstjórn
Ásdís Kristjánsdóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins
Haraldur Guðjónsson

Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur og forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir verðbólguhorfur eftir kosningar velta á því hve mikið verði úr kosningaloforðum flokkanna sem allir lofi auknum útgjöldum.

Einnig segir hún að það fari eftir því hvernig loforðin verði fjármögnuð sem liggi í flestum tilvikum ekki fyrir, enda misvel í lagt í loforðunum milli flokka að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

„Við erum á hápunkti hagsveiflunnar og aukinn slaki við þær aðstæður eru ekki heppilegar,“ segir Ásdís um ríkisfjármálin og tekur þar með undir orð Ásgeirs Jónssonar dósents í hagfræði sem Viðskiptablaðið greindi frá í morgun.

„Það hefur verið rætt um að nýta tekjuafgang ríkissjóðs up á 44 milljarða króna í aukin útgjöld. [...]Hagsveifluleiðréttur tekjuafgangur ríkissjóðs á auðvitað að vera jákvæður, ekki síst á tímum mikillar þenslu, og þannig er spornað við sveiflum í hagkerfinu, fremur en að ýta undir þær.“

Segir Ásdís að hvort sem skattarnir verði lagðir beint á almenning eða á fyrirtækin dragi það úr ráðstöfunartekjum almennings enda séu stjórnvöld skuldbundin að uppfylla fjármálareglur um tekjuafgang og skuldir ríkisins.

„Ef útgjaldaaukningin yrði fjármögnuð með aukinni skattheimtu á fyrirtæki en ekki almenning, þá eykst kostnaður fyrirtækjanna sem því nemur sem getur farið út í verðlagið.“