Dr. Dan Mitchell segir að fyrsta skrefið í átt að hagvaxtarvænna umhverfi sé að stöðva vöxt ríkisvaldsins. Þegar því marki hafi verið náð sé hægt að vinna að því að minnka það.

Mitchell er skattasérfræðingur Cato-stofnunarinnar í Bandaríkjunum og flutti á dögunum erindi um skatta og hagvöxt á fundi á vegum Rannsóknarseturs um nýsköpun og hagvöxt í Háskóla Íslands. Hann segir erfitt að vera með gott skattkerfi þegar ríkið er stórt. Þess vegna sé mikilvægt að halda vexti ríkisins í skefjum.

„Í Sviss hafa menn farið áhugaverða leið þar sem útgjaldavöxtur ríkisins er takmarkaður með lögum og sátt meðal stjórnmálaflokka. Útgjöld ríkisins mega ekki aukast meira á hverju ári en sem nemur verðbólgu að viðbættri fólksfjölgun. Vegna þess að hagvöxtur er venjulega meiri en sem nemur verðbólgu og fólksfjölgun þá hefur umfang ríkisins í Sviss minnkað sem hlutfall af landsframleiðslu þrátt fyrir að hafa aukist að nafnvirði. Þetta er leið sem er þess virði að skoða fyrir önnur ríki.“