*

laugardagur, 19. júní 2021
Innlent 29. apríl 2021 14:17

Útgjaldavandi en ekki tekjuvandi

Skuldaaukning borgarinnar sýnir glöggt að núverandi meirihlutasamstarf kosti sitt, að sögn Eyþórs Laxdal Arnalds.

Ritstjórn
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Haraldur Guðjónsson

Heildarskuldir Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) ásamt skuldbindingum voru 386 milljarðar króna í árslok 2020, samanborið við 345 milljarða í lok síðasta árs. Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í tilkynningu að skuldaaukning borgarinnar sýnir „glöggt að núverandi meirihlutasamstarf fjögurra flokka kosti sitt“.

„Í upphafi kjörtímabilsins var uppgreiðslutími skulda 6 ár og hefur hann nú nær tvöfaldast á tveimur árum þrátt fyrir stórauknar tekjur. Þetta er bara eitt dæmi um það hversu slæm og alvarleg staðan er hjá Reykjavíkurborg,“ segir Eyþór og bendir á að skuldir borgarinnar hafi aukist að jafnaði um 3,4 milljarða króna í hverjum mánuði. 

Hann segir að borgarstjórnin sé enn að bæta í skuldsetninguna og að engin tilraun hafi verið gerð til að ná jafnvægi í rekstri. „Á sama tíma og fyrirtækin í borginni eru í vanda hefur borgin stækkað báknið gríðarlega enda eru tekin lán fyrir rekstri borgarinnar og fjárfestingum,“ segir Eyþór.

Samkvæmt ársreikningi var Reykjavíkurborg var rekin með tæplega 2,8 milljarða króna halla árið 2020 en áætlanir gerðu ráð fyrir 12 milljarða króna afgangi. Rekstrarniðurstaða borgarinnar fyrir bæði A- og B-hluta var því 14,7 milljörðum króna lakari en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. 

„Reykjavíkurborg er með skatta í botni og glímir því ekki við tekjuvanda, enda hafa allir helstu tekjuliðir hennar hækkað um því sem nemur heilum 6 milljörðum á síðasta ári þrátt fyrir dýpstu kreppu lýðveldissögunnar. Vandi borgarinnar er því fyrst og fremst útgjaldavandi en því miður sér ekki fyrir endann á honum í áætlunum borgarstjóra,“ segir Eyþór. 

Að hans sögn er vandinn tilkominn vegna þess að meirihlutaflokkarnir stuðluðu að skuldasöfnun í „mesta tekjugóðæri Íslandssögunnar“ en hirtu ekki um að hagræða þrátt fyrir fyrirheit um annað í meirihlutasáttmálanum. 

„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reyndu ítrekað að benda á þá staðreynd þegar borgin var í miklum færum til þess að greiða niður skuldir en á það var ekki hlustað,“ segir Eyþór.  

Hann vill nú sjá borgina snúa vörn í sókn með fjölgun hagstæðra lóða, sölu á ónauðsynlegum eignum og nútímavæðingu rekstrar borgarinnar.

„Við verðum að sýna ábyrgð og snúa vörn í sókn. Við viljum í þeim efnum fjölga hagstæðum lóðum í borgarlandinu, selja ónauðsynlegar eignir eins og Malbikunarstöðina Höfða og nútímavæða reksturinn. Það er hægt ná jafnvægi í rekstri Reykjavíkurborgar með slíkum viðsnúningi sem mun þá jafnframt skila sér til bæði fyrirtækja og heimila,“ segir Eyþór að lokum.