Innlend útgjöld álvera á Íslandi námu um 92 milljörðum eða rúmum 250 milljónum á dag árið 2015. Þrátt fyrir lægra álverð eru ú tgjöldin 10 milljörðum hærri en í fyrra. Þetta kom fram í máli Magnúsar Þórs Ásmundssonar stjórnarformanns Samáls á ársfundi Samáls í morgun.

Alls fluttu álverin út tæp 860 þúsund tonn af áli og álafurðum í fyrra og námu útflutningstekjurnar 237 milljörðum eða um 38% af vöruútflutningi þjóðarinnar.

Samanlögð raforkukaup álvera á Íslandi námu um 41 milljarði árið 2015 og er þá miðað við meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju. Starfsmenn álvera á Íslandi voru um 1.452 árið 2015, en auk þess voru fastir starfsmenn verktaka inni á álverssvæðunum um 530.

Laun og launatengd gjöld námu í fyrra um 16 milljörðum, en  kjarakannanir hafa ítrekað sýnt að álfyrirtækin greiða umtalsvert hærri laun en meðallaun eru á almennum vinnumarkaði. Skattar og opinber gjöld álfyrirtækjanna námu um 6 milljörðum árið 2015.

Álver á Íslandi greiddu tæpa 30 milljarða fyrir kaup á vörum og þjónustu af hundruðum fyrirtækja árið 2015 og eru raforkukaup þá undanskilin og nýfjárfestingar námu rúmum 4 milljörðum króna.

Magnús rifjaði upp á fundinum að í skýrslu Hagfræðistofnunar frá því í fyrra kemur fram að heildarframlag álklasans til landsframleiðslu nam nálægt 6,8% á árunum 2011 og 2012, en það samsvarar um 120 milljörðum árið 2012. Ef einnig er horft til eftirspurnaráhrifa var framlagið tæp 9% árið 2012 eða um 160 milljarðar.