Í fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2009 er farið fram á að fjárheimildir ríkissjóðs aukist um 26,9 milljarða á árinu frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum ársins. Tekjur aukast hins vegar um 4 milljarða frá því sem ráðgert var.

Útgjaldaukningin er að mestu til komin vegna aukinna vaxtagjalda og framlaga í Atvinnuleysistryggingasjóð.

Tekjuaukningin er aðallega til komin vegna aukinna vaxtatekna ríkissjóðs af veittum lánum og bankareikningum.

Í frumvarpinu sem var lagt fram á Alþingi í dag segir að vaxtagjöld aukist um um 17 milljarða árinu. „Þessi mikla hækkun má að stærstum hluta rekja til endurfjármögnunar bankanna, sem gert er ráð fyrir að verði fjármagnaðir með útgáfu nýrra ríkisskuldabréfa," segir í skýringum frumvarpsins.

„Í fjárlögum var hins vegar miðað við að endurfjármögnunin yrði framkvæmd með ráðstöfunum á peningalegum eignum milli ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands."

Þá segir í frumvarpinu að áætlað sé að útgjöld í Atvinnuleysistryggingasjóð aukist, á þessu ári, um 7,7 milljarða króna. „Við afgreiðslu fjárlaga var miðað við að atvinnuleysi yrði um 5,7% á árinu en  nú gera áætlanir ráð fyrir að það verði um 8,6%."