Tekjur ríkissjóðs á öðrum ársfjórðungi 2020 voru um það bil 21 milljarði lægri en á sama tíma ári áður. Þær voru 40 milljörðum króna lægri á fyrri árshelmingi 2020 samanborið við 2019 en þær drógust saman um fimm milljarða árið áður. Frá þessu er greint í hagsjá Landsbankans.

Enn fremur er sagt frá því að heildarútgjöld ríkissjóðs jukust um 47 milljarða króna á fyrri árshelmingi 2020 samanborið við árið áður. Þar af skýra fjárframlög um 36 milljarða af aukningunni. Fjárfesting ríkissjóðs minnkaði um 17,1% milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 og fjárfesting sveitarfélaga dróst saman um 9%.

Samanlögð tekjuminnkun og útgjaldaaukning ríkissjóðs á milli fyrri árshelminga 2019 og 2020 nemur því alls 88 milljörðum króna.

Á árinu 2019 nam halli ríkissjóðs að meðaltali 4,3% af tekjum en var 16% á fyrsta ársfjórðungi 2020 og 28% á öðrum ársfjórðungi. Halli hefur verið á rekstri ríkissjóðs allt frá upphafi ársins 2019.

Kemur fram að samdráttur í fjárfestingu hjá hinu opinbera skjóti skökku við „í ljósi þess að opinbert fjárfestingarátak hefur verið margboðað.“ Á síðasta ári nam fjárfesting ríkissjóðs um 67 milljörðum króna. Með fjárlögum og fjáraukalögum hefur verið ákveðin aukning um 25 milljarða í fjárfestingu frá síðasta ári eða um 37% aukningu.