Fjárlög Evrópusambandsins munu aukast um 2% á næsta ári, sem er töluvert minni aukning en ESB hafði vonast eftir. Hafði sambandið viljað ná fram 5% aukningu, en aðildarríki eins og Bretland settu þeim stólinn fyrir dyrnar í þeim efnum.

Var þetta ákveðið á laugardag og sagði talsmaður bresku stjórnarinnar að þetta væri mjög góð niðurstaða fyrir Bretland, að því er segir í frétt BBC.

Hefur BBC eftir Mark Hoban, þingmanni og aðstoðarfjármálaráðherra, að markmið bresku stjórnarinnar sé að koma í veg fyrir raunaukningu á fjárlögum ESB. Hafi breska stjórnin fært rök fyrir því að 5% aukning á fjárlögum sambandsins væri órökrétt á sama tíma og aðildarríkin væru að taka mjög erfiðar ákvarðanir heima fyrir.