Íslensk heimili greiða langlægsta hlutfall neysluútgjalda á Norðurlöndunum fyrir orku- og veituþjónustu. Heimili í Danmörku greiðir rúmlega þrefalt hærra hlutfall en hér á landi.

Orku- og veituþjónusta, eða heitt vatn, kalt vatn, rafmagn og fráveita, þykir nauðsynleg þjónusta á hverju heimili. Afar mismunandi er hversu hátt hlutfall neysluútgjalda fer í þessa þjónustu hjá helstu nágrannaríkjum Íslands. Sé miðað við gögn frá stærstu veitufyrirtækjum í höfuðborgum Norðurlandanna og útgjaldarannsókn, sem framkvæmd er af hagstofum Norðurlandanna, kemur fram að 3.75% neysluútgjalda meðalheimilis í Reykjavík er varið í orku- og veituþjónustu. Hlutfallið er hins vegar 12% fyrir heimili í Kaupmannahöfn og er hæst þar af Norðurlöndunum. Heimili í Stokkhólmi þarf að greiða svipað hlutfall og í Kaupmannahöfn, eða tæp 11%. Í Osló, þar sem hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum er næstlægst, greiðir meðalheimilið um 7% og í Helsinki er hlutfallið tæplega 9%.

Í Reykjavík er hlutfall orku- og veituþjónustu af neysluútgjöldum heimila lægst í öllum flokkum; fyrir rafmagn, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu.