Frá árinu 2008 hafa verið gerðar 176 breytingar á skattkerfinu, að meðaltali 22 skattkerfisbreytingar á ári. Meginþorri breytinganna hafa verið skattahækkanir eða 132 á meðan 44 skattalækkanir hafa átt sér stað frá árinu 2008, flestar á árinu 2014. Kom þetta fram í máli Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins á Skattadegi Deloitte í dag.

Skattar bæði fyrirtækja og einstaklinga eru hærri nú en fyrir hrun að sögn Ásdísar, en skattbyrðinni er þó misskipt milli atvinnugreina og greiða fjármála- og sjávarútvegsfyrirtæki hlutfallslega meiri skatt en aðrar atvinnugreinar. „Eðli máls samkvæmt aukast skatttekjur á góðæristímum en skreppa saman við samdrátt. Skatttekjur á hvern Íslending hafa hækkað töluvert undanfarin ár. Mikill hagvöxtur á síðasta ári gefur tilefni til að ætla að skatttekjur nálgist nýjar hæðir,“ sagði Ásdís.

Þrátt fyrir auknar skatttekjur hefur afgangur af rekstri hins opinbera ekki verið mikill, enda séu útgjöld hins opinbera nánast hvergi meiri en á Íslandi. Auknum skatttekjum hafi verið varið í aukin útgjöld og eru útgjöld á mann nú álíka mikil og árin fyrir hrun að sögn Ásdísar. „Aðhaldsaðgerðir ríkisins hafa því að mestu gengið tilbaka. Skattahækkanir vörðuðu leiðina að hallalausum rekstri. Nú er svo komið að auknum tekjum hefur verið ráðstafað í aukin útgjöld.“

Segir hún að væri sama skattprósentan lögð á fyrirtæki í dag og árið 2008 væri skattbyrði þeirra 85 milljörðum króna lægri. Sé það svipuð fjárhæð og varið er til löggæslu- og menntamála. Tekjuaukanum hafi því að öllu leyti verið ráðstafað í aukin útgjöld. Segir hún að skattar á fyrirtæki séu hvergi hærri en á Íslandi. Meðaltal OECD ríkja liggi í kringum 3% af landsframleiðslu en á Íslandi greiði fyrirtæki um 5% af landsframleiðslu til ríkisins í formi skatta .