Heildarútgjöld ríkisinsfóru tæplega 164 milljörðum króna umfram fjárheimildir árin 2009 til 2011. Samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar bætist 13,1 milljarður við framúrkeyrsluna árið 2012, sem ekki var heimild fyrir samkvæmt fjárlögum. Því hefur framúrkeyrsla á fjárlögum numið 177 milljörðum króna á fjórum árum.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins spurði um heildarútgjöld ríkissjóðs á umræddu tímabili í fyrirspurn til fjármálaráðuneytisins. . Hvað heildarútgjöldin varðar þá er rétt að taka fram að stór hluti þess fjármagns skýrst af óreglulegum liðum og byggist á uppgjöri hjá reikningshaldsaðilum síðar meir s.s. afskriftir skattkrafna, niðurfærslur á eignarhlutum og skuldbindingar vegna ríkisábyrgða.

Í svari fjármálaráðuneytisins eru tilekin nokkur atriði, t.d. 17,6 milljarða króna afskriftir skattkrafna umfram áætlun í ríkisreikningi 2009, gjaldfærslu á 33 milljarða króna eiginfjárframlagi ríkissjóðs til Íbúðalánasjóðs í ríkisreikningi 2010 og gjaldfærslu á 19,2 milljarða króna framlagi til Landsbankans vegna ábyrgðar á innstæðum í SpKef-sparisjóði í ríkisreikningi 2011.

Stórir einstaka liðir

Séu þessi liðir frádregnir nema heildarútgjöld umfram heimildir engu að síður um 60 milljörðum króna árin 2009 til 2011. Þar vegur þetta þungt:

  • 4,5 milljarða króna umframútgjöld til sjúkratrygginga,
  • um 4 milljarða umframútgjöld til Landspítalans og
  • 3,5 milljarða króna umframútgjöld til málefna fatlaðra,
  • 7 milljarða króna framlag til Byggðastofnunar sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum,
  • um 5 milljarða króna framlag til Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og jafnframt
  • um 3,2 milljarða sem ekki innheimtust af fjármagnstekjuskatti.

Í svari fjármálaráðuneytisins eru tilteknir fjölmargir liðir sem flestir telja á tugum eða hundruðum milljóna króna í heildarútgjöld umfram heimildir.