Frumtekjur ríkisins hafa aukist um 5% síðan árið 2006, meðan frumútgjöld þess eru nú 7% hærri en þá, ef miðað er við fast verðlag.

En ef horft er til fjármálaáætlunar sem gildir til ársins 2021 er gert ráð fyrir að frumtekjurnar verði 21% hærri árið 2021 en þær voru árið 2006, meðan frumgjöldin verði 24% hærri.

Frumtekjur vaxið samfellt frá 2010

Frá árinu 2010 hefur verið samfelldur vöxtur frumtekna ríkissjóðs að raunvirði, en hann nam 6-8% árin 2016 og 2017.

Áætlað er að raunvöxturinn verði 2-3% árin 2018 til 2021, en ef miðað er við fast verðlag eru frumtekjurnar orðnar 5% hærri í ár en árið 2006 og verða þær 21% hærri árið 2021 ef áætlanir ganga eftir.

Á árunum 2010 til 2012 var um 10% raunlækkun frumgjalda ríkissjóð, en þau stóðu í stað að raungildi árin 2013-2015.

Frumgjöldin vaxa minna í ár og næsta ár

Árin 2016 og með nýju fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2017 er gert ráð fyrir 3-4% raunvexti frumgjaldanna, en á árunum 2018 til 2021 er hann áætlaður 2-3%.

Ef miðað er við fast verðlag eru frumgjöldin orðin 7% hærri en árið 2006 og er áætlað að þau verði orðin 24% hærri árið 2021.