Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 215 milljarða króna á síðasta ári eða sem nemur 7,3% af landsframleiðslu ársins, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar . Til samanburðar var afkoman neikvæð um 46,4 milljarða króna árið 2019 eða 1,5% af landsframleiðslu.

Tekjur hins opinbera eru áætlaðar 1.246 milljarðar króna á síðasta ári eða sem nemur 42,4% af vergri landsframleiðslu (VLF). Á verðlagi hvers árs drógust tekjur hins opinbera saman um tæpa 30 milljarða árið 2020, borið saman við fyrra ár, eða um 2,3%. Útgjöld hins opinbera eru áætluð 1.461 milljarðar króna árið 2020 og jukust þau um 10,5% á milli ára. Launakostnaður hins opinbera jókst um 9,4% frá árinu 2019. Áætluð fjárfestingarútgjöld hins opinbera námu 104,4 milljörðum króna á síðasta ári.

Leita þarf aftur til ársins 2009 til að finna meiri halla á afkomu hins opinbera. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins hafa haft umtalsverð áhrif á útgjöld hins opinbera en útgjöld vegna hlutabótaleiðar og greiðslu launa á uppsagnarfresti námu samtals um 35 milljörðum króna á árinu 2020. Útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna almennra atvinnuleysisbóta jukust einnig umtalsvert og fóru úr 23 milljörðum króna á árinu 2019 í 54 milljarða á árinu 2020 sem er aukning um 136%.

Útgjöld ríkissjóðs jukust um 13% milli ára

Heildartekjur ríkissjóðs árið 2020 eru áætlaðar 890 milljarðar króna og að þær hafi dregist saman um 4,8% frá árinu 2019. Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs hafi aukist um 12,8% milli ára og numið 1.091 milljarði króna. Halli ríkissjóðs var því rúmlega 200 milljarðar króna á síðasta ári, miðað við bráðbirgðatölur Hagstofunnar. Heildartekjur almannatrygginga námu 632 milljörðum króna, sem er um 24,8% aukning frá fyrra ári en um 99,5% tekna almannatrygginga renna úr ríkissjóði.

Tekjur sveitarfélaga á síðasta ári eru áætlaðar 404 milljarðar króna sem er um 5,3% aukning frá fyrra ári. Útgjöld sveitarfélaga jukust um 4,9% og námu 422 milljörðum króna árið 2020.

Skattar á tekjur og hagnað samsvara 18,3% af VLF

Skattar á tekjur og hagnað er stærsti tekjuliður hins opinbera og er metið að hann hafi skilað 43,2% af heildartekjum hins opinbera á síðasta ári. Alls námu tekjur hins opinbera af sköttum á tekjur og hagnað um 538 milljörðum króna og jukust um 1,5% frá fyrra ári. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu skattar af tekjum og hagnaði 18,3% á síðasta ári.

Tekjur hins opinbera af sköttum á vöru og þjónustu drógust saman á árinu 2020 borið saman við fyrra ár eða um 3,7%. Skattar á vöru og þjónustu námu 26,6% af heildartekjum það ár eða 11,3% af landsframleiðslu ársins.